Jóhanna María, formaður Tvíundar

Jóhanna María Svövudóttir er formaður Tvíundar (nemendafélag tölvunarfræðideildar HR). Hún er 24 ára annars árs nemi við tölvunarfræðideild HR – sannkölluð ofurkona.

Hún hafði enga reynslu af tölvunarfræði áður en hún byrjaði en það hefur ekki komið að sök enda hörkunemandi á forsetalista HR. Innan tölvunarfræðinnar finnst henni öll forritun skemmtileg en utan skóla finnst henni gaman að fara í ræktina, ferðast og læra eitthvað aukalega [innsk. höf.: þvílíkur metnaður!].

14356047_10209162699317426_1897801001_n

Hvers vegna tölvunarfræði: Ég valdi tölvunarfræði upphaflega vegna þess að þar bíða manns góðir tekju- og atvinnumöguleikar að lokinni útskrift.

Hver eru framtíðaráform þín: Draumurinn er að fá skemmtilega vinnu á skemmtilegum vinnustað. Svo langar mig líka að ferðast meira.

Hvernig finnst þér staða kvenna í tæknigeiranum: Mér finnst hún fara batnandi með hverju árinu, en eins og er vil ég sjá töluvert fleiri stelpur í þessum geira.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart við tölvunarfræðina: Það kom mér verulega á óvart hversu skemmtileg mér fannst hún.

Að lokum spyr ég hvort hún hafi góð ráð fyrir stelpur sem eru að byrja í tölvunarfræði eða hafa áhuga á tölvunarfræði.

„Ekki láta blekkjast af staðalímyndum tölvunarfræðinnar, þetta 
fag er alveg jafn mikið fyrir klárar stelpur sem hafa enga reynslu 
og stráka sem hafa leikið sér að því að hakka frá því þeir voru 10 ára.“

Sólveig Sara – nýnemafulltrúi /sys/tra 2016-2017

Sólveig Sara Samúelsdóttir er 26 ára tölvunarfræðinemi við Háskólann í Reykjavík og nýnemafulltrúi /sys/tra 2016 – 2017.

Sólveig er útskrifaður viðskiptafræðingur (einnig frá HR) auk þess sem hún lærði snyrtifræði og förðunarfræði í Danmörku. Utan skóla finnst henni skemmtilegast að vera með vinum og fjölskyldu, borða góðan mat auk þess sem hún æfir frjálsar íþróttir og CrossFit.

14348840_10210665956271865_1797476366_n

Hvers vegna tölvunarfræði: Tölvunarfræði er áhugavert nám sem gefur góða atvinnumöguleika og mörg tækifæri. Námið tengist einnig viðskiptafræðináminu að nokkru leyti.

Hefur þú einhverja reynslu af tölvunarfræði fyrir nám: Nei, enga fyrri reynslu nema almenna tölvukunnáttu.

Þegar Sólveig er spurð um hverjar fyrirmyndir hennar eru segist hún ekki eiga neinar ákveðnar fyrirmyndir en hún reyni að tileinka sér það jákvæða sem hún sér í fari hvers og eins.

Ég vil vera besta útgáfan af sjálfri mér á hverjum einasta degi.

Þegar hún er spurð um kvenfyrirmyndir í atvinnulífinu dettur henni Vigdís Finnbogadóttir fyrst í hug. Hún sé kona sem lætur ekkert stöðva sig.

Hvernig finnst þér staða kvenna í tölvunarfræði: Ég held að það sé skortur á kvenmönnum í tölvunarfræði. Það mætti hvetja fleiri til að sækja námið með því að kynna námið meira. Það má alltaf gera gott enn betra.

/sys/tur er því mjög gagnlegt félag til að efla kvenmenn innan tölvunarfræðinnar.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart við tölvunarfræðina: Hvað þetta er skemmtilegt nám og hvað ég er búin að læra margt á stuttum tíma.

Við /sys/tur erum mjög ánægðar að fá þessa ofurkonu með okkur í lið!

Margrét S. Kristjánsdóttir

Margrét er ein af upphaflegum /sys/trum. Hún er með BSc í tölvunarfræði frá HR og vinnur núna hjá Advania. Hún æfir Brasilískt Jiu-Jitsu hjá Mjölni.

~ ~ ~

Nafn: Margrét S. Kristjánsdóttir, aðstoðaði stofnendur /sys/tra í upphafi og sat svo síðar sem varamaður í stjórn.

Aldur: 30 ára

Útskrift: BSc í tölvunarfræði í janúar 2015

Hvar vinnurðu (og við hvað): Ég vinn hjá Advania og hef gert það síðan ég útskrifaðist. Ég er hluti af SharePoint hópi og starfa þar sem ráðgjafi og almennur forritari.

magga

BSc verkefni: CESAR (Centris Schedule Automation bRidge), forrit sem sækir gögn um áfanga, stofur og kennara innan Háskólans í Reykjavík og þáttar (parses) gögnin yfir á .xml eða .csv format. Þessum skrám má svo hlaða inn í forrit frá þriðja aðila sem sér um að búa til stundatöflur út frá gögnunum. Þegar stundatöflurnar eru tilbúnar er þeim hlaðið inn í CESAR á xml/scv formati og CESAR keyrður aftur. CESAR les tímatöfluna, þáttar hana og pantar stofur úr gagnagrunni skólans.

Hvað finnst þér skemmtilegast innan tölvunarfræðinnar: Mér finnst skemmtilegast að vinna í framenda hluta vefa og annarra umhverfa. Ég vil helst sjá hlutina gerast – sjá breytingar myndrænt. Annars heillar flest forritun mig.

Hvað finnst þér gaman að gera utan tölvunarfræðinnar: Ég hef gaman af því að eyða miklum tíma með kærastanum mínum og hundinum okkar. Annars æfi ég einnig BJJ í Mjölni ásamt öðru skemmtilegu þar. Áður fyrr æfði ég bogfimi og á boga – er alltaf að reyna að koma mér af stað í það aftur.

Hvernig telur þú að námið í HR hafi nýst þér í undirbúningi fyrir vinnuna: Það nýtist auðvitað mjög vel. Öll praktísku verkefnin í Tölvunarfræðinni í HR undirbúa mann vel fyrir vinnumarkaðinn. Námið kennir manni ákveðna rökhugsun í þessum geira og gerir mann betur í stakk búinn til að leysa ýmis forritunarvandamál. Þar sem ég hafði aldrei forritað áður en ég fór í þetta nám, þá augljóslega hefur það nýst mér mjög vel. Einnig fær maður alveg nýja sín á Google 🙂

 

Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar og hvers vegna: Ada Lovelace finnst mér vera flott fyrirmynd, enda var hún þekkt fyrir að vera fyrsti forritarinn því hún skrifaði reiknirit á reiknivél Charles Babbage. Hefði reiknivélin verið smíðuð hefði forritið hennar látið vélina reikna út röð Bernoulli talna. Hún hefur vegna þess verið kölluð fyrsti forritarinn og forritunarmál verið nefnt eftir henni. Hversu töff er það 🙂

Er einhver kona í atvinnulífinu sem þú lítur upp til? Hvers vegna? Mér finnst Berglind Ósk Bergsdóttir hjá Kolibri, og áður Plain Vanilla, vera hreint út sagt frábær. Hef séð hana bæði halda fyrirlestur á /sys/tra fyrirlestrakvöldi þar sem hún kynnti android forritun og núna nýlega sá ég hana á JSConf meetup þar sem hún talaði um fyrirbærið „Impostor syndrome – feeling lika a fake“, [sjá hér] ég tengdi svo rosalega vel við það sem hún sagði þar. Hún er flottur forritari sem ég lít upp til.

Hvernig finnst þér staða kvenna í tæknigeiranum: Staðan finnst mér vera á uppleið, en mjög hægri uppleið. Hún er alls ekki góð og ekki þar sem við viljum hafa hana. Starf /sys/tra er til að mynda mjög mikilvægt hér á Íslandi. Ef haldið er áfram að ná til stúlkna yngri kynslóða og kvenna almennt, þá munum við halda áfram að sjá breytingar.

Hverjir voru gagnlegustu áfangarnir sem þú tókst: Hugsa að það hafi verið Vefforritun I og II og svo Vefþjónustur. Þessir áfangar voru líka uppáhalds áfangarnir mínir. Þeir hafa nýst mér vel í starfi, þá sér í lagi þegar ég fæ framendavinnu inn á borð hjá mér.

magga2

Hvað hefðirðu viljað kynna þér betur: Ég hefði mögulega viljað fara alla leið með Vefforritunarleiðina í náminu. Ég kláraði önn fyrr þar sem hafði 60 [einingar] úr fyrra háskólanámi metnar. Hefði ég ákveðið að vera önn lengur hefði ég tekið aðeins fleiri áfanga sem tengjast vefforritun og hönnun vefa. Einnig hefði ég viljað kynna mér betur snjallsímaforritun. En ég sé ekki eftir neinu í náminu, það er ekkert mál að kynnast öllu því sem maður vill læra aukalega á netinu ef út í það er farið.

Hver eru þín framtíðaráhorf: Mín framtíðaráhorf eru að vinna sem framenda-/vefforritari. Halda áfram að læra og hafa gaman að því að forrita.

Hefur þú einhver góð ráð fyrir núverandi nemendur í tölvunarfræði við HR: Ég veit að þetta getur verið erfitt en ekki gefast upp, þetta nám er 100% þess virði. Þú sérð ekki eftir þessu námi þegar þú ert komin á vinnumarkaðinn. Skemmtileg vinna og skemmtilegt og fjölbreytt fólk. En alls ekki gleyma ykkur í bókunum, ég mæli með að skella sér í vísindaferði og kynnast fyrirtækjunum á þessum markaði. Þá fáið þið líka smá nasaþef af því hvernig vinnu þið getið unnið við eftir nám.

Annað sem þú vilt koma á framfæri: Njótið þessara skemmtilegu ára í þessu námi. Verið dugleg að fikta ykkur áfram í því sem þið gerið, öll auka verkefni sem þið takið ykkur fyrir hendur hjálpa þegar kemur að atvinnuleit eftir nám 🙂

Ingibjörg Ósk, mastersnemi við HR

Nýr spennandi liður sem við kynnum eru viðtöl við flottar stelpur í tæknigeiranum. Sú sem ríður á vaðið er Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, ein af stofnendum /sys/tra.

~~~~~~

ingibjorg_mynd

Nafn: Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, ein af stofnendum /sys/tra & fyrrum formaður.

Aldur: 24 ára.

Útskrift: BSc í hugbúnaðarverkfræði árið 2015.

Hvað finnsts þér skemmtilegast innan tölvunarfræðinnar: Það skemmtilegasta sem ég geri er að forrita og þá aðallega í framendanum. App forritun á hug minn allan en gervigreind kallar líka sterkt á mig.

Hvað finnst þér gaman að gera utan tölvunarfræðinnar: Ég elska að ferðast og eyða tíma með hundinum mínum í náttúrunni.

Hvar vinnurðu (og við hvað): Ég vinn við mobile app forritun hjá Gangverki og er núna að forrita iOS appið Sotheby’s. Þar að auki er ég í mastersnámi í hugbúnaðarverkfræði.

Hvernig telur þú að námið í HR hafi nýst þér í undirbúningi fyrir vinnuna: Það sem nýtist mér helst úr HR var endalaus verkefnavinna í kúrsum tölvunarfræðinnar. Af henni græddi ég lausnarmiðaða hugsun, betri rökhugsun, æfingu í hópavinnu og Google hæfileika 🙂

Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar og hvers vegna: Grace Hopper er klárlega stærsta fyrirmynd mín. Það er ekki bara vegna þess að hún þróaði fyrsta þýðandann heldur er það vegna húmors hennar og viðhorfs. Tilvitnunin hér að neðan segir allt sem segja þarf:

If it’s a good idea, go ahead and do it. It’s much easier to apologize than it is to get permission

Humans are allergic to change. They love to say, “We’ve always done it this way.” I try to fight that. That’s why I have a clock on my wall that runs counterclockwise.

Þar að auki eru yfirmenn mínir hjá Gangverki miklar fyrirmyndir mínar. Þeir eru hörkuforritarar sem ég hef lært mikið af og snillingar í samskiptum við viðskiptavini.

Hvaða konu í atvinnulífinu líturðu upp til: Berglind Ósk Bergsdóttir hjá Kolibri. Hún var einn fyrsti Android forritarinn á Íslandi og á ferli sínum hefur hún súnt að hún er samkvæm sjálfri sér og hugrökk. Ég verð líka að nefna Svönu Helen Björnsdóttur, rafmagnsverkfræðing og frumkvöðul. Hún hélt fyrirlestur á /sys/tra kvöldi fyrir nokkrum árum og veitti mér mikinn innblástur.

Hvernig finnst þér staða kvenna í tæknigeiranum: Hún er ekki nógu góð en staðan almennt er heldur ekki nógu góð. Það er fullt af fólki þarna úti sem fer á mis við forritun. Í þeim hópi eru stelpur í meirihluta. Það segir sig sjálft því þær eru einungis um 20-25% í tæknigeiranum öllum. Stelpur eiga alveg jafnmikið erindi inn í tæknigeirann eins og strákar. Hlutfall kvenna í tölvunarfræðideild HR hefur aukist mikið á undanförnum 3 árum og ég held að /sys/tur hafi átt stóran þátt í því. Ég hef því engar áhyggjur af framtíðinni og held að þetta muni fljótt jafnast út með hjálp flottra samtaka eins og /sys/tra.

Hverjir voru gagnlegustu áfangarnir sem þú tókst: Inngangur að tölvunarfræði, Forritun, Vefforritun og Þýðendur.

Hvað hefðirðu viljað kynna þér betur: Mobile app forritun og gervigreind.

Hver eru þín framtíðaráhorf: Framtíðaráhorf mín eru að verða betri með hverjum deginum í að forrita og læra nýja hluti.

Hefur þú einhver góð ráð fyrir núverandi nemendur í tölvunarfræði við HR: Takið virkan þátt í félagslífinu. Það er svo hollt fyrir sálina að kíkja út endrum og sinnum þótt þið viljið bara vera heima að forrita. Sækið um stöður sem aðstoðarkennarar – jafnvel þótt ykkur finnist þið ekki vera snillingur í kúrsinum því þið lærið svo mikið á því að þurfa að kenna öðrum.

Annað sem þú vilt koma á framfæri: Reynið eins og þið getið að fá sumarvinnu tengda náminu eða finnið starfsnám erlendis. Ef það tekst ekki, þá getið þið fundið ykkur gæluverkefni til að vinna í á sumrin. Það er svo dýrmæt reynsla sem nýtist ykkur eftir útskrift.

Nýtt skólaár 2016 – 2017

Þá er sumarið að líða undir lok og nýtt og ferskt skólaár að hefjast. Ný stjórn /sys/tra hlakkast á að takast á við ný verkefni. Við ætlum að vera duglegar að leyfa ykkur að fylgjast með hér á síðuni.

Í dag er nýnemadagur og við bjóðum alla nýnema velkomna í HR!

systur_bolur

Aðalfundur /sys/tra

Aðalfundur /sys/tra var haldinn í dag, 3. maí. Þar fórum við yfir það sem við gerðum á liðnu námsári, ársreikning, lagabreytingar og kosið í nýja stjórn /sys/tra. Samþykktrar voru nýjar lagabreytingar þar sem breytt var embættaskipan stjórn sys/tra. Áður var stjórn félagsins skipuð fimm félagsmönnum; formanni, varaformanni, gjaldkera, ritar, upplýsingarfulltrúa og þremur varamönnum. Lagabreytingin var sú að embættin yrðu; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, fjölmiðlafulltrúi, viðburðastjóri og nýnemafulltrúi. Einnig var ennfremur skilgreint hlutverk hvers og eins stjórnarmeðlims.

Kosið var í nýja stjórn. Kosið var eitt embætti í einu þar sem stelpur buðu sig fram í tiltekið embætti. Nýja stjórnin samanstendur af:

Formaður: Katrín Mjöll Halldórsdóttir

Varaformaður: Þórhildur Þorleiksdóttir

Ritari: Hanna Ragnarsdóttir

Gjaldkeri: Ásthildur Guðmundsdóttir

Fjölmiðlafulltrúi: Ásta Ægisdóttir

Viðburðarstjóri: Hulda Lilja Hannesdóttir

Kosið verður um nýnemafulltrúa þegar næsta önn byrjar.

 

IMG_5415

Fráfarandi stjórn /sys/tra býður nýju stjórninni velkomna og hlakkar til að fylgjast með.

Stelpur og Tækni

Stelpur og tækni dagurinn var haldinn í þriðja sinn 28.apríl í tilefni “Girls in ICT Day”. Um 400 stelpur komu í HR og tókum við /sys/tur að okkur 150 stelpur í workshop, þar sem þær fengu að spreyta sig í HTML og CSS. Við skemmtum okkur mjög vel og það var gaman að sjá hvað margar voru áhugasamar um efnið.

 

k

 

l

Fyrirlestrahádegi – Lífið eftir útskrift

Fyrr í dag héldu /sys/tur fyrirlestrahádegi fyrir fullan sal. Við fengum til okkur tvær útskrifaðar stelpur úr HR til að tala um lífið eftir útskrift. Það voru þær Áslaug Eiríksdóttir og Elín Björk Jónsdóttir. Áslaug er ein af stofnendum /sys/tra og útskrifaðist hún árið 2014. Hún vinnur sem forritari hjá Azozo. Elín útskrifaðist síðasta sumar og vinnur hún sem forritari hjá Advania. Þetta var mjög áhugavert og fræðandi hádegi og veittu þær /sys/trum góð ráð sem vert er að hafa í huga áður en farið er út á vinnumarkaðinn og þegar maður er byrjaður að vinna.

Við þökkum Áslaugu og Elínu fyrir að koma og spjalla við okkur /sys/tur og öllum gestunum sem mættu og gerðu þetta ennþá skemmtilegra.

IMG_5393

 

IMG_5398

Vísindaferð í Reiknistofu Bankanna

Reiknistofa Bankanna bauð /sys/trum að koma og skoða fyrirtækið. RB er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni sem þróar fjármálalausnir. Þeirra hlutverk er að auka hagkvæmni í tæknirekstri íslenskra fjármálafyrirtækja.

Starfsfólkið hjá RB tók vel á móti okkur með mat og drykk og kynntu fyrir okkur fyrirtækinu og komandi verkefnum.

IMG_5371

Við viljum þakka RB fyrir að hafa tekið svona vel á móti okkur og hlökkum til að sjá spennandi nýjungar frá þeim sem þau kynntu fyrir okkur.

IMG_5383

Háskóladagurinn ’16

Háskóladagurinn var haldinn í gær, 5.mars þar sem sjö háskólar landsins kynntu námsbrautir sínar. Í HR voru /sys/tur með bás undir tölvunarfræðideild þar sem gestir gátu spjallað við okkur um námið. Á básnum sýndum við einnig teikniforrit sem nokkrar stelpur í tölvunarfræði gerðu í áfanganum vefforritun 2. Gestir fengu að prófa teikniforritið auk þess fengu þau að spreyta sig í tölvutætingi.

IMG_5354IMG_5349

 

 

 

 

 

 

 

/sys/tur voru einnig með námskeið í HTML & CSS, og Javascript. Við notuðum vefsíðuna codecademy en þar getur fólk lært að kóða gagnvirkt, öll helstu forritunarmálin. Gestir gátu þá byrjað hjá okkur, lært helstu grunnatriðin, farið síðan heim og haldið áfram að kóða.

IMG_5328IMG_5327

 

 

 

 

 

 

 

Það komu margir áhugasamir og spjölluðu við /sys/tur á háskóladeginum. Við getum ekki beðið eftir að taka á móti nýju fólki á næstu önn sem verða vonandi meðlimir /sys/tra.