Berglind Ósk Bergsdóttir er einn reyndasti android forritari landsins. Hún hélt fyrirlestur í fyrirlestrahádegi /sys/tra á seinustu önn um greinina ,,Feeling like a fake – the impostor syndrome” (hér). Berglind vinnur við hugbúnaðarþróun hjá Kolibri sem framendaforritari.
Við fengum hana til þess að svara nokkrum spurningum um sjálfa sig.

Berglind Ósk útskrifaðist með BSc í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands vorið 2010. BSc verkefnið hennar snéri að forritun fyrir tölvutengdan þreifistaf fyrir blinda. Þegar notandinn hreyfir þreifistafinn er eins og hann þreifi á yfirborði einhvers hlutar, t.d. kúlu eða ferils. Þetta getur m.a. gagnast í stærðfræðikennslu fyrir blinda sem geta fundið hvernig föll líta út og fleira.
Varðandi námið segir hún að gagnlegustu áfangarnir hafi verið hugbúnaðarverkefni 1 & 2, forritunarmál, tölvugrafík, vefforritun og grunnáfangarnir tölvunarfræði 1 & 2.
Þegar hún er spurð um ráð fyrir núverandi nemendur segir hún:
Að læra í hóp og ekki vera hrædd við að spyrja samnemendur og kennara þegar þið skiljið eitthvað ekki. Endilega takið þátt í félagslífinu og hafið gaman. Einkunnir skipta þannig séð engu máli (það leit aldrei neinn vinnustaður á einkunnirnar mínar úr háskólanáminu), heldur skiptir reynsla miklu meira máli – hvort sem það er sumarvinna eða forrit sem þið hafið sjálf hafið gert í frítíma ykkar. Þannig lærum við líka mest, með því að forrita.
Innan tölvunarfræðinnar þykir henni mobile- og framendaforritun skemmtilegust, en líka bara að fá að forrita.
Þegar hún er ekki að forrita finnst henni gaman að semja og flytja ljóð og raftónlist, lesa, spila borðspil, ferðast, fara á tónleika, iðka jóga og sund.
,,Greinin þín ,,Feeling like a fake – Impostor syndrome” var mjög áhugaverð og við tengdum mikið við hana. Hefurðu ráð fyrir þá sem þjást af þessum einkennum”:
Að hafa það í huga að þið eruð ekki ein um að þjást af þessu. Eru væntingarnar sem þið hafið til sjálfra ykkar kannski óraunhæfar og eingöngu frá ykkur komið? Talið við félaga um hvernig ykkur líður og fáið feedback. Farið og verið óhrædd við að spyrja. Munið að það er enginn fullkominn, það er í lagi að gera mistök og þið eruð ykkar verstu dómarar!
,,Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar og hvers vegna”:
Úff, það eru svo margar! Listakonan Amanda Palmer fyrir að vera hún sjálf – algjörlega opin og deilir opinberlega sínum tilfinningum og hugsunum. Brooke McAlary sem er með podcastið Slow Home sem hefur gjörbreytt lífi mínu til hins betra seinasta árið og svo Bob Dylan fyrir innblástur í ljóðagerð og tónlist og að vera hann sjálfur sama hvað. Hjá Kolibri hef ég unnið með og vinn með mörgu hæfileikaríku og góðhjörtuðu fólki sem eru mér mikilvægar fyrirmyndir. Auk þess að vera svo heppin að eiga ótrúlega flottar vinkonur sem eru mér líka stöðugar fyrirmyndir.
,,Er einhver kona í atvinnulífinu sem þú lítur upp til? Hvers vegna?”:
Magga Dóra, UX-hönnuður og tölvunarfræðingur sem starfar nú hjá MadPow. Magga Dóra var partur af Tæknitátum, sem var hópur kvenna í tæknigeiranum sem hittist öðru hverju á meðan ég var í námi og þessir hittingar voru mér mikilvægir til að sjá kvenfyrirmyndir. Svo er Kolbrún Halldórsdóttir tölvunarfræðingur og verkefnastjóri tæknideildar 365, sem ég var svo heppin að fá að vinna með hjá gogoyoko – fyrsta vinnustaðnum mínum eftir útskrift. Hún sýndi mér að það er ekkert mál að vera kona í þessum geira og var mér ómetanlegur stuðningur á þessum fyrstu skrefum á vinnumarkaðinum. Að lokum vil ég minnast á Birgittu Jónsdóttur skáld og þingkonu, en mér hefur auðnast að starfa með henni að IMMI og með Pírötum. Hún er hörkudugleg og sterk kona sem vill bæta heiminn og er óhrædd við að standa með sinni samvisku og láta til sín heyra.
,,Hvernig finnst þér staða kvenna í tæknigeiranum?”:
Auðvitað er leiðinlegt hvað konur eru ennþá í miklum minnihluta, en það er sem betur fer að breytast og hefur breyst töluvert síðan ég útskrifaðist. Persónulega hef ég nánast ekkert fundið fyrir neinum fordómum, né upplifað neitt misrétti sem kona í þessum geira á Íslandi sem er auðvitað bara frábært.
,,Að lokum, er eitthvað annað sem þú vilt koma á framfæri?”:
Þótt mér finnist forritun sjálf ótrúlega skemmtileg þá skiptir ekki minna máli að vera í góðu teymi og vera á stað með góðum anda þar sem fólk fær að vera það sjálft og þroskast sem bæði forritarar og manneskjur. Ég mæli með Agile aðferðum við hugbúnaðarþróun sem er ótrúlega gagnlegar til að fá það besta úr teymum og hvet fólk til að kafa dýpta í hvernig er best að vinna með öðrum, þar má nefna the Core Protocols og Reinventing organisations.