UTMessan

Tölvutætingur

Hin árlega UTmessa var haldin í Hörpu um helgina og /sys/tur létu sig ekki vanta. Um 10.000 manns á öllum aldri komu á laugardeginum til að sjá allt það skemmtilega sem var í boði á sýningarbásunum og gleðin leyndi sér ekki.

Yfir laugardaginn sýndu /sys/tur gestum inn í tölvur af ýmsum gerðum og leyfðu þeim að fikta í þeim og taka þær í sundur og setja þær saman að vild. Gestirnir fengu að læra um innviði tölvunnar og öllum á aldrinum 15-25 ára bauðst að skrá sig í keppni í tölvutætingi.

/sys/tur héldu í samvinnu við Promennt og Háskólann í Reykjavík keppnina í tölvutætingi sem var gífurlega vinsæl.
Tvær stelpur og tveir strákar tóku þátt í keppninni og þau stóðu sig öll eins og hetjur. Einar Helgi Guðmundsson stóð uppi sem sigurvergari en það tók hann aðeins 10 mínútur að setja saman tölvu úr bútum og fá gögn af harða disknum yfir á tölvuskjáinn. Í verðlaun fékk hann námskeið í tölvuviðgerðum hjá Promennt að andvirði 129.000 krónur.

/sys/tur þakka Promennt og Háskólanum í Reykjavík fyrir frábært samstarf og öllum þeim sem komu að UT messunni fyrir frábæra helgi.

UT MESSAN

/sys/tur voru með sýningarbás á UT messunni í Hörpu síðastliðinn laugardag. Fjölmennt var á hátíðinni en tæplega 9 þúsund manns kíktu við á laugardeginum. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi á sýningarbásnum þar sem við kynntum ýmis verkefni sem við höfum unnið að með litlu tölvunni Raspberry Pi.
Fólki bauðst að rifja upp æskuminningar sínar og spila marga af þeim allra vinsælustu NES og SNES leikjum en Raspberry Pi hafði verið breytt í Nintendo hermi. Gæludýr Elísabetar voru í beinni útsendingu á sýningarbásnum en hún setti upp nagdýraeftirlit með hjálp Raspberry Pi. Þar að auki var hægt að prófa viðmót stýrikerfisins Raspbian og spreyta sig í auðvelda forritunarmálinu Scratch sem fylgir með stýrikerfinu. Lena Dís sýndi fólki Media Center sem hún bjó til úr Raspberry Pi og Helga og Áslaug kynntu fólki fyrir Tor verkefni sínu. Í því var sýnt hvernig mögulegt er að nota Raspberry Pi til þess að fela sporin sín á netinu og hvernig hægt er að nota hana í njósnir. Krúttmundur og Krúttmunda unnu hjörtu gesta UT messunnar. Börnunum bauðst að forrita hreyfingar Krúttmunds í forritinu Lego Mindstorms en þau voru ótrúlega fljót að læra á forritið og það var gaman að sjá hve áhugasöm þau voru að forrita.

/sys/tur þakka öllum þeim sem komu á UT messuna fyrir frábæran dag.

ut14 ut141 ut142 ut145 ut146