VAR HÚSMÓÐIR OG DREYMDI Í 10 ÁR UM AÐ FARA Í TÖLVUNARFRÆÐI

Perla Þrastardóttir er á fyrsta ári í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Áhugi á tölvunarfræðinámi hafði blundað í henni í áratug og að lokum tók hún ákvörðun um að láta slag standa og innrita sig í frumgreinanám HR sem er undirbúningur fyrir háskólanám. Hún hafði í byrjun áhyggjur af miklum fjarvistum frá þremur börnum en segir að með góðu skipulagi sé allt hægt.

FRAMANDI LÆRDÓMUR
Í frumgreinanáminu fékk Perla þá undirstöðu í stærðfræði sem þarf til að hefja nám í tölvunarfræði. „Ég kláraði frumgreinanámið síðustu áramót og byrjaði í tölvunarfræðinni við HR síðasta vor. Tölvunarfræðin er ansi strembin og þetta er framandi lærdómur. Þetta snýst mikið um stærðfræði, líkindareikning og að nota rökhugsun. Í frumgreinanáminu hafði maður ákveðinn grunn að byggja á en þetta er alveg nýtt fyrir mér. En óskaplega gaman og spennandi.“ Perla segist núna bara hugsa um að komast í gegnum prófin og sé ekki mikið farin að hugsa um áherslusvið en segist þó aðeins byrjuð að velta því fyrir sér. „Nú er að koma inn það áherslusvið sem ég hafði látið mig dreyma um sem er vef- og viðmótsþróun. Ég var einmitt að vonast til að það myndi bætast við svið sem kæmi inn á vefforritun og hönnun þannig að þetta verður klárlega mitt áherslusvið.“

ÆTLAR AÐ SIGRA HEIMINN

Helga Guðmundsdóttir dúxaði í tölvunarfræði við HR en lokaverkefni hennar voru rannsóknir fyrir NASA. Henni finnst konur í faginu ekki nægjanlega sýnilegar og stofnaði félag kvenna í tölvunarfræði. Atvinnutilboðum rignir yfir Helgu en hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu í samstarfi við Facebook.

„Ég var ekki þessi týpíski tölvunörd. Ég spilaði ekki tölvuleiki og þegar ég byrjaði hafði aldrei forritað,“ segir Helga Guðmundsdóttir, meistaranemi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, en Helga dúxaði þegar hún lauk grunnnáminu núna í janúar. „Ég var lengi vel hikandi við að  
skrá mig í námið og fannst eins og þarna væru bara einhverjir strákar með snillingastimpil á enninu og að ég ætti lítið erindi með þeim, sem auðvitað var algjör misskilningur. Fyrst prófaði ég að vinna á tölvuverkstæði og fór á námskeið hjá NTV, Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum, til að fá smá sjálfstraust. Þar gekk mér vel og ég ákvað að fara í námið,“ segir hún en alls liðu fimm ár frá því áhuginn vaknaði þar til hún lét af verða að skrá sig í tölvunarfræði. Helga vinnur nú að meistaraverkefni sínu í samstarfi við vísindamenn frá Facebook. Í grunnnáminu stundaði hún rannsóknir fyrir NASA og Google er þegar byrjað að hafa samband. Helga er einnig ein af stofnendum /sys/tra, sem er félag kvenna innan tölvunarfræðideildar í Háskólanum í Reykjavík.


Ekki alltaf góður nemandi

Helga var ekki alltaf góður nemandi, rétt skreið í gegn um menntaskólann og fannst námið hundleiðinlegt. Þegar kom að því að velja háskólafag var tölvunarfræði aðeins eitt þeirra faga sem komu til greina. „Ég var ekkert fullkomlega viss um að þetta væri málið en ég var ágætis notandi og tölvur hafa legið ágætlega fyrir mér. Ef það þurfti að gera eitthvað með tölvu gat ég fundið út úr því. Mér finnst líka heillandi við tölvunarfræðina að það er hægt að tengja hana við hvað sem er. Þó mann langi til dæmis síðar að læra líffræði þá er hægt að tengja það saman. Möguleikarnir eru endalausir. Mér gekk strax vel í náminu enda fannst mér það skemmtilegt og ég sinnti því. Það skiptir öllu að maður hafi áhuga á því sem maður er að
læra. Á þriðju önn skráði ég mig í mjög erfiðan stærðfræðikúrs, nánast af slysni, og flestir þar voru á þriðja ári í stærðfræði en ég hef lítinn stærðfræðibakgrunn, enda langt síðan ég var í menntaskóla. Ég ákvað bara að taka þessari áskorun, lagði á mig mikla vinnu og stóð uppi með hæstu einkunn á öllum verkefnum og á lokaprófinu í kúrsinum. Það er svo mikill persónulegur sigur að halda að maður eigi ekki erindi en ganga svo miklu betur en maður þorði að vona. Sagan hefur síðan endurtekið sig. Ég skráði mig til dæmis
í tölvuöryggisáfanga, eina stelpan sem hingað til hefur verið í þeim áfanga, og ákvað að vera ekki hrædd við strákana með snillingastimpilinn sem mér fannst vita allt fyrirfram. Þar lærði ég að hakka og hef tvisvar komist í úrslit í Hakkarakeppni HR,“ segir hún en tilgangur keppninnar er að kenna forriturum og yfirmönnum tölvufyrirtækja að fyrirbyggja árásir tölvuþrjóta með því að þekkja þær leiðir sem andstæðingurinn notar til að koma í veg fyrir að hann fái sínu framgengt.
Viðtalið við Helgu birtist í Fréttatímanum 21. febrúar 2014.Smellið hér til að lesa viðtalið í heild sinni.
AetlarAdSigraHeiminn

UT MESSAN

/sys/tur voru með sýningarbás á UT messunni í Hörpu síðastliðinn laugardag. Fjölmennt var á hátíðinni en tæplega 9 þúsund manns kíktu við á laugardeginum. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi á sýningarbásnum þar sem við kynntum ýmis verkefni sem við höfum unnið að með litlu tölvunni Raspberry Pi.
Fólki bauðst að rifja upp æskuminningar sínar og spila marga af þeim allra vinsælustu NES og SNES leikjum en Raspberry Pi hafði verið breytt í Nintendo hermi. Gæludýr Elísabetar voru í beinni útsendingu á sýningarbásnum en hún setti upp nagdýraeftirlit með hjálp Raspberry Pi. Þar að auki var hægt að prófa viðmót stýrikerfisins Raspbian og spreyta sig í auðvelda forritunarmálinu Scratch sem fylgir með stýrikerfinu. Lena Dís sýndi fólki Media Center sem hún bjó til úr Raspberry Pi og Helga og Áslaug kynntu fólki fyrir Tor verkefni sínu. Í því var sýnt hvernig mögulegt er að nota Raspberry Pi til þess að fela sporin sín á netinu og hvernig hægt er að nota hana í njósnir. Krúttmundur og Krúttmunda unnu hjörtu gesta UT messunnar. Börnunum bauðst að forrita hreyfingar Krúttmunds í forritinu Lego Mindstorms en þau voru ótrúlega fljót að læra á forritið og það var gaman að sjá hve áhugasöm þau voru að forrita.

/sys/tur þakka öllum þeim sem komu á UT messuna fyrir frábæran dag.

ut14 ut141 ut142 ut145 ut146