Enn eitt frábært /sys/tra kvöld er að baki, en í þetta sinn komu til okkar þær Berglind Ósk Bergsdóttir og Klara Rún Kjartansdóttir.
Þær eiga það sameiginlegt að vera báðar bráðsnjallir app forritarar, en hún Berglind er android forritari hjá Plain Vanilla og Klara er iOS forritari sem hefur unnið sjálstætt í að forrita kennsluleiki fyrir börn.
Berglind er eina konan í android forritunarteymi Plain Vanilla og hefur unnið þar síðan 2012, en hún útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2010.
Klara stofnaði sitt eigið fyrirtæki árið 2012 sem heitir 27 (www.20seven.net) og hefur með því forritað sjálf þó nokkuð mörg öpp, meðal annars Explorer Kids, Brick Bucket, Lærum og leikum með hljóðin, Kids Sound Lab og Froskaleikir. Hún útskrifaðist úr Háskólanum í Reykjavík og hefur einnig kennt áfanga þar.
Mætingin var frábær og spurningaflæðið var rosalega mikið.
Anna Laufey, nemandi í HR og fjölmiðlafulltrúi /sys/tra, sagði síðan stelpunum frá því hvernig er hægt að nálgast kennslu í app forritun. Einnig sagði hún frá lokaverkefninu sínu sem var android app til þess að hjálpa sykursjúkum að reikna út insúlínsmagn fyrir hverja máltíð.
Við viljum þakka Berglindi og Klöru sérstaklega fyrir að mæta, sem og öllum flottu stelpunum sem mættu.