Margrét er ein af upphaflegum /sys/trum. Hún er með BSc í tölvunarfræði frá HR og vinnur núna hjá Advania. Hún æfir Brasilískt Jiu-Jitsu hjá Mjölni.
~ ~ ~
Nafn: Margrét S. Kristjánsdóttir, aðstoðaði stofnendur /sys/tra í upphafi og sat svo síðar sem varamaður í stjórn.
Aldur: 30 ára
Útskrift: BSc í tölvunarfræði í janúar 2015
Hvar vinnurðu (og við hvað): Ég vinn hjá Advania og hef gert það síðan ég útskrifaðist. Ég er hluti af SharePoint hópi og starfa þar sem ráðgjafi og almennur forritari.
BSc verkefni: CESAR (Centris Schedule Automation bRidge), forrit sem sækir gögn um áfanga, stofur og kennara innan Háskólans í Reykjavík og þáttar (parses) gögnin yfir á .xml eða .csv format. Þessum skrám má svo hlaða inn í forrit frá þriðja aðila sem sér um að búa til stundatöflur út frá gögnunum. Þegar stundatöflurnar eru tilbúnar er þeim hlaðið inn í CESAR á xml/scv formati og CESAR keyrður aftur. CESAR les tímatöfluna, þáttar hana og pantar stofur úr gagnagrunni skólans.
Hvað finnst þér skemmtilegast innan tölvunarfræðinnar: Mér finnst skemmtilegast að vinna í framenda hluta vefa og annarra umhverfa. Ég vil helst sjá hlutina gerast – sjá breytingar myndrænt. Annars heillar flest forritun mig.
Hvað finnst þér gaman að gera utan tölvunarfræðinnar: Ég hef gaman af því að eyða miklum tíma með kærastanum mínum og hundinum okkar. Annars æfi ég einnig BJJ í Mjölni ásamt öðru skemmtilegu þar. Áður fyrr æfði ég bogfimi og á boga – er alltaf að reyna að koma mér af stað í það aftur.
Hvernig telur þú að námið í HR hafi nýst þér í undirbúningi fyrir vinnuna: Það nýtist auðvitað mjög vel. Öll praktísku verkefnin í Tölvunarfræðinni í HR undirbúa mann vel fyrir vinnumarkaðinn. Námið kennir manni ákveðna rökhugsun í þessum geira og gerir mann betur í stakk búinn til að leysa ýmis forritunarvandamál. Þar sem ég hafði aldrei forritað áður en ég fór í þetta nám, þá augljóslega hefur það nýst mér mjög vel. Einnig fær maður alveg nýja sín á Google 🙂
Hverjar eru helstu fyrirmyndir þínar og hvers vegna: Ada Lovelace finnst mér vera flott fyrirmynd, enda var hún þekkt fyrir að vera fyrsti forritarinn því hún skrifaði reiknirit á reiknivél Charles Babbage. Hefði reiknivélin verið smíðuð hefði forritið hennar látið vélina reikna út röð Bernoulli talna. Hún hefur vegna þess verið kölluð fyrsti forritarinn og forritunarmál verið nefnt eftir henni. Hversu töff er það 🙂
Er einhver kona í atvinnulífinu sem þú lítur upp til? Hvers vegna? Mér finnst Berglind Ósk Bergsdóttir hjá Kolibri, og áður Plain Vanilla, vera hreint út sagt frábær. Hef séð hana bæði halda fyrirlestur á /sys/tra fyrirlestrakvöldi þar sem hún kynnti android forritun og núna nýlega sá ég hana á JSConf meetup þar sem hún talaði um fyrirbærið „Impostor syndrome – feeling lika a fake“, [sjá hér] ég tengdi svo rosalega vel við það sem hún sagði þar. Hún er flottur forritari sem ég lít upp til.
Hvernig finnst þér staða kvenna í tæknigeiranum: Staðan finnst mér vera á uppleið, en mjög hægri uppleið. Hún er alls ekki góð og ekki þar sem við viljum hafa hana. Starf /sys/tra er til að mynda mjög mikilvægt hér á Íslandi. Ef haldið er áfram að ná til stúlkna yngri kynslóða og kvenna almennt, þá munum við halda áfram að sjá breytingar.
Hverjir voru gagnlegustu áfangarnir sem þú tókst: Hugsa að það hafi verið Vefforritun I og II og svo Vefþjónustur. Þessir áfangar voru líka uppáhalds áfangarnir mínir. Þeir hafa nýst mér vel í starfi, þá sér í lagi þegar ég fæ framendavinnu inn á borð hjá mér.
Hvað hefðirðu viljað kynna þér betur: Ég hefði mögulega viljað fara alla leið með Vefforritunarleiðina í náminu. Ég kláraði önn fyrr þar sem hafði 60 [einingar] úr fyrra háskólanámi metnar. Hefði ég ákveðið að vera önn lengur hefði ég tekið aðeins fleiri áfanga sem tengjast vefforritun og hönnun vefa. Einnig hefði ég viljað kynna mér betur snjallsímaforritun. En ég sé ekki eftir neinu í náminu, það er ekkert mál að kynnast öllu því sem maður vill læra aukalega á netinu ef út í það er farið.
Hver eru þín framtíðaráhorf: Mín framtíðaráhorf eru að vinna sem framenda-/vefforritari. Halda áfram að læra og hafa gaman að því að forrita.
Hefur þú einhver góð ráð fyrir núverandi nemendur í tölvunarfræði við HR: Ég veit að þetta getur verið erfitt en ekki gefast upp, þetta nám er 100% þess virði. Þú sérð ekki eftir þessu námi þegar þú ert komin á vinnumarkaðinn. Skemmtileg vinna og skemmtilegt og fjölbreytt fólk. En alls ekki gleyma ykkur í bókunum, ég mæli með að skella sér í vísindaferði og kynnast fyrirtækjunum á þessum markaði. Þá fáið þið líka smá nasaþef af því hvernig vinnu þið getið unnið við eftir nám.
Annað sem þú vilt koma á framfæri: Njótið þessara skemmtilegu ára í þessu námi. Verið dugleg að fikta ykkur áfram í því sem þið gerið, öll auka verkefni sem þið takið ykkur fyrir hendur hjálpa þegar kemur að atvinnuleit eftir nám 🙂