Jóhanna María, formaður Tvíundar

Jóhanna María Svövudóttir er formaður Tvíundar (nemendafélag tölvunarfræðideildar HR). Hún er 24 ára annars árs nemi við tölvunarfræðideild HR – sannkölluð ofurkona.

Hún hafði enga reynslu af tölvunarfræði áður en hún byrjaði en það hefur ekki komið að sök enda hörkunemandi á forsetalista HR. Innan tölvunarfræðinnar finnst henni öll forritun skemmtileg en utan skóla finnst henni gaman að fara í ræktina, ferðast og læra eitthvað aukalega [innsk. höf.: þvílíkur metnaður!].

14356047_10209162699317426_1897801001_n

Hvers vegna tölvunarfræði: Ég valdi tölvunarfræði upphaflega vegna þess að þar bíða manns góðir tekju- og atvinnumöguleikar að lokinni útskrift.

Hver eru framtíðaráform þín: Draumurinn er að fá skemmtilega vinnu á skemmtilegum vinnustað. Svo langar mig líka að ferðast meira.

Hvernig finnst þér staða kvenna í tæknigeiranum: Mér finnst hún fara batnandi með hverju árinu, en eins og er vil ég sjá töluvert fleiri stelpur í þessum geira.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart við tölvunarfræðina: Það kom mér verulega á óvart hversu skemmtileg mér fannst hún.

Að lokum spyr ég hvort hún hafi góð ráð fyrir stelpur sem eru að byrja í tölvunarfræði eða hafa áhuga á tölvunarfræði.

„Ekki láta blekkjast af staðalímyndum tölvunarfræðinnar, þetta 
fag er alveg jafn mikið fyrir klárar stelpur sem hafa enga reynslu 
og stráka sem hafa leikið sér að því að hakka frá því þeir voru 10 ára.“

Sólveig Sara – nýnemafulltrúi /sys/tra 2016-2017

Sólveig Sara Samúelsdóttir er 26 ára tölvunarfræðinemi við Háskólann í Reykjavík og nýnemafulltrúi /sys/tra 2016 – 2017.

Sólveig er útskrifaður viðskiptafræðingur (einnig frá HR) auk þess sem hún lærði snyrtifræði og förðunarfræði í Danmörku. Utan skóla finnst henni skemmtilegast að vera með vinum og fjölskyldu, borða góðan mat auk þess sem hún æfir frjálsar íþróttir og CrossFit.

14348840_10210665956271865_1797476366_n

Hvers vegna tölvunarfræði: Tölvunarfræði er áhugavert nám sem gefur góða atvinnumöguleika og mörg tækifæri. Námið tengist einnig viðskiptafræðináminu að nokkru leyti.

Hefur þú einhverja reynslu af tölvunarfræði fyrir nám: Nei, enga fyrri reynslu nema almenna tölvukunnáttu.

Þegar Sólveig er spurð um hverjar fyrirmyndir hennar eru segist hún ekki eiga neinar ákveðnar fyrirmyndir en hún reyni að tileinka sér það jákvæða sem hún sér í fari hvers og eins.

Ég vil vera besta útgáfan af sjálfri mér á hverjum einasta degi.

Þegar hún er spurð um kvenfyrirmyndir í atvinnulífinu dettur henni Vigdís Finnbogadóttir fyrst í hug. Hún sé kona sem lætur ekkert stöðva sig.

Hvernig finnst þér staða kvenna í tölvunarfræði: Ég held að það sé skortur á kvenmönnum í tölvunarfræði. Það mætti hvetja fleiri til að sækja námið með því að kynna námið meira. Það má alltaf gera gott enn betra.

/sys/tur er því mjög gagnlegt félag til að efla kvenmenn innan tölvunarfræðinnar.

Er eitthvað sem hefur komið þér á óvart við tölvunarfræðina: Hvað þetta er skemmtilegt nám og hvað ég er búin að læra margt á stuttum tíma.

Við /sys/tur erum mjög ánægðar að fá þessa ofurkonu með okkur í lið!

Opnunarkvöld /sys/tra 2016

Við heldum opnunarkvöld /sys/tra fimmtudaginn 1. september sl. á höfninni við Hörpu. Það var góð mæting og frábær stemmning.

Markmiðið var að kynna starf /sys/tra, koma saman og kynnast og hafa gaman. Það var gaman að sjá hversu margir nýnemar létu sjá sig, bæði stelpur og strákar.

Við vorum sérstaklega ánægðar með það að sjá eldri stjórnarmeðlimi mæta á svæðið! Gaman að sjá ykkur Ingibjörg (hér), Anna, Sara og Hafdís!

Við minnum svo á hugmyndakassann okkar. Við erum alltaf opnar fyrir hugmyndum!