VAR HÚSMÓÐIR OG DREYMDI Í 10 ÁR UM AÐ FARA Í TÖLVUNARFRÆÐI

Perla Þrastardóttir er á fyrsta ári í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Áhugi á tölvunarfræðinámi hafði blundað í henni í áratug og að lokum tók hún ákvörðun um að láta slag standa og innrita sig í frumgreinanám HR sem er undirbúningur fyrir háskólanám. Hún hafði í byrjun áhyggjur af miklum fjarvistum frá þremur börnum en segir að með góðu skipulagi sé allt hægt.

FRAMANDI LÆRDÓMUR
Í frumgreinanáminu fékk Perla þá undirstöðu í stærðfræði sem þarf til að hefja nám í tölvunarfræði. „Ég kláraði frumgreinanámið síðustu áramót og byrjaði í tölvunarfræðinni við HR síðasta vor. Tölvunarfræðin er ansi strembin og þetta er framandi lærdómur. Þetta snýst mikið um stærðfræði, líkindareikning og að nota rökhugsun. Í frumgreinanáminu hafði maður ákveðinn grunn að byggja á en þetta er alveg nýtt fyrir mér. En óskaplega gaman og spennandi.“ Perla segist núna bara hugsa um að komast í gegnum prófin og sé ekki mikið farin að hugsa um áherslusvið en segist þó aðeins byrjuð að velta því fyrir sér. „Nú er að koma inn það áherslusvið sem ég hafði látið mig dreyma um sem er vef- og viðmótsþróun. Ég var einmitt að vonast til að það myndi bætast við svið sem kæmi inn á vefforritun og hönnun þannig að þetta verður klárlega mitt áherslusvið.“