Um /sys/tur

 

Screenshot 2017-02-02 23.33.55

/sys/tur er félag kvenna innan tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík. Félagið var stofnað haustið 2013 af Áslaugu Eiríksdóttur, Elísabetu Guðrúnar- og Jónsdóttur, Helgu Guðmundsdóttur og Ingibjörgu Ósk Jónsdóttur, nemendum við Háskólann í Reykjavík. Markmið /sys/tra í upphafi var að skapa öruggan vettvang fyrir stelpur til þess að ræða sín á milli án þess að óttast gagnrýni. Þegar /sys/tur voru stofnaðar var hlutfall kvenna 18% meðal nýnema. Haustið 2016 var hlutfall kvenna í tölvunarfræði rétt undir 30% meðal nýnema.

Á fjórum árum hefur starfsemi félagsins orðið meiri og fjölbreyttari. /sys/tur hafa lagt mikið upp úr því að vinna að stuðningsneti fyrir stelpur og að kynna stelpum fyrir tæknigreinum sem valkost fyrir bæði kynin. Einnig leggjum við áherslu á að hvetja stelpur áfram, að þær einblíni á kosti sína en ekki galla og hafi sjálfstraust til þess að vinna að því sem þær hafa ástríðu fyrir.

/sys/tur vilja vekja athygli á fyrirmyndum og gera stelpur í námi og starfi sýnilegri út á við.

Félagið leggur því áherslu á að kynna félagsmeðlimi fyrir starfi og reynslu kvenna úr tæknigeiranum og benda á fyrirmyndir. Reglulega eru haldnir viðburðir innan félagsins til þess að skapa grundvöll fyrir tengslamyndun meðal kvenna í tölvunarfræði. Einnig skipuleggja /sys/tur fræðslu með það markmið að efla sjálftraust stelpna í tæknilegum atriðum þannig að þær sýni frekar frumkvæði. Það mikilvægt að kynna fjölbreytileika tölvunarfræðinnar þannig fleiri sjái hana sem mögulega námsleið og því hafa /sys/tur verið að kynna tölvunarfræði utan veggja háskólans.

Nafnið /sys/tur er vísun í skráarkerfi stýrikerfisins Linux og póstlistann Systers sem var stofnaður af Anitu Borg árið 1987 og var hugsaður sem tengslanet kvenna innan tæknigeirans. Til að byrja með voru 12 konur skráðar en nú hefur póstlistinn stækkað mikið og er orðinn að stærsta póstlistasamfélagi kvenna í tæknigeiranum um allan heim. Anita Borg var doktor í tölvunarfræði og var hún frumkvöðull í að efla og hvetja fleiri konur til að taka virkan þátt í tölvu- og tækniheiminum.