Vísindaferð til Betware!

Betware bauð /sys/trum í vísindaferð síðastliðin fimmtudag, okkur til mikillar gleði. Mætingin var mjög góð og okkur þótti öllum mjög gaman að fá að hitta allar flottu konurnar í þessu frábæra fyrirtæki. Betware vinnur að því að skapa netlausnir fyrir happadrættisleiki og ýmsar getraunir og hefur farið ört vaxandi seinustu árin. Við viljum þakka Betware innilega fyrir að hafa tekið svona vel á móti okkur og við vonumst til að hitta þau oftar í framtíðinni.

 

Hacker MeetUp

Startup Iceland og /sys/tur verða saman með hakkaþon í maí og í tilefni að því kom Bala Kamallakharan, stofnandi Startup Iceland, og hélt fyrir okkur kynningu um hakkaþonið og kvatti alla til að skrá sig.

Hakkaþonið snýst um að skapa eitthvað stórkostlegt með sterku teymi innan 36 klukkutíma. Sigurvegarinn fær $1,000.00 Bandaríkjadollara, frægð og frama, og æðisleg tækifæri á atvinnumarkaðinum.
Þótt þú sigrir ekki keppnina, þá er frábært að geta sagt frá því að þú hafa tekið þátt, þú færð frábæra reynslu og munt læra ólýsanlega margt.

Keppendur geta skráð sig sem fullskipað lið eða sem einstakling sem síðan verður skipaður í lið. Þú þarft ekki að vera forritari til þess að taka þátt þar sem það þarf fólk með styrkleika á ýmsum sviðum til þess að skapa gott lið. Einnig þarf ekki að hafa tilbúna hugmynd til þess að taka þátt, því það verður birtur listi með ýmsum hugmyndum sem er hægt að útfæra.  Í stuttum orðum, þá þarftu bara að skrá þig og mæta!
Startup Iceland sér til þess að þú hafir nægan mat og koffín yfir alla helgina svo þú þurfir ekki að hafa áhyggjur af neinu.

/sys/tur vilja kvetja alla til þess að koma og skrá sig. Hver veit nema hugmyndin þín verði að nýjasta nýsköpunarfyrirtækið?

Skráðu þig á Hakkaþonið hér:
https://www.eventbrite.com/e/startup-iceland-2015-hackathon-tickets-16083132081

Viltu vita meira um hakkaþon? Kíktu á þetta:
https://www.youtube.com/watch?v=aS_g99j62YE

 

11080637_808255375888209_3252956727015203433_o11025836_808255329221547_3683965613945569233_o10608542_808255465888200_5439992235195182064_o11000538_808255289221551_8143019244683013532_o10668849_808255429221537_6506330487823781258_o  11082289_808255395888207_8240886975095125145_o

 

UTMessan

Tölvutætingur

Hin árlega UTmessa var haldin í Hörpu um helgina og /sys/tur létu sig ekki vanta. Um 10.000 manns á öllum aldri komu á laugardeginum til að sjá allt það skemmtilega sem var í boði á sýningarbásunum og gleðin leyndi sér ekki.

Yfir laugardaginn sýndu /sys/tur gestum inn í tölvur af ýmsum gerðum og leyfðu þeim að fikta í þeim og taka þær í sundur og setja þær saman að vild. Gestirnir fengu að læra um innviði tölvunnar og öllum á aldrinum 15-25 ára bauðst að skrá sig í keppni í tölvutætingi.

/sys/tur héldu í samvinnu við Promennt og Háskólann í Reykjavík keppnina í tölvutætingi sem var gífurlega vinsæl.
Tvær stelpur og tveir strákar tóku þátt í keppninni og þau stóðu sig öll eins og hetjur. Einar Helgi Guðmundsson stóð uppi sem sigurvergari en það tók hann aðeins 10 mínútur að setja saman tölvu úr bútum og fá gögn af harða disknum yfir á tölvuskjáinn. Í verðlaun fékk hann námskeið í tölvuviðgerðum hjá Promennt að andvirði 129.000 krónur.

/sys/tur þakka Promennt og Háskólanum í Reykjavík fyrir frábært samstarf og öllum þeim sem komu að UT messunni fyrir frábæra helgi.

App kvöld

Berglind

5545108_orig

Enn eitt frábært /sys/tra kvöld er að baki, en í þetta sinn komu til okkar þær Berglind Ósk Bergsdóttir og Klara Rún Kjartansdóttir.
Þær eiga það sameiginlegt að vera báðar bráðsnjallir app forritarar, en hún Berglind er android forritari hjá Plain Vanilla og Klara er iOS forritari sem hefur unnið sjálstætt í að forrita kennsluleiki fyrir börn.
Berglind er eina konan í android forritunarteymi Plain Vanilla og hefur unnið þar síðan 2012, en hún útskrifaðist sem tölvunarfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2010.
Klara stofnaði sitt eigið fyrirtæki árið 2012 sem heitir 27 (www.20seven.net) og hefur með því forritað sjálf þó nokkuð mörg öpp, meðal annars Explorer Kids, Brick Bucket, Lærum og leikum með hljóðin, Kids Sound Lab og Froskaleikir. Hún útskrifaðist úr Háskólanum í Reykjavík og hefur einnig kennt áfanga þar.
Mætingin var frábær og spurningaflæðið var rosalega mikið.
Anna Laufey, nemandi í HR og fjölmiðlafulltrúi /sys/tra, sagði síðan stelpunum frá því hvernig er hægt að nálgast kennslu í app forritun. Einnig sagði hún frá lokaverkefninu sínu sem var android app til þess að hjálpa sykursjúkum að reikna út insúlínsmagn fyrir hverja máltíð.

Við viljum þakka Berglindi og Klöru sérstaklega fyrir að mæta, sem og öllum flottu stelpunum sem mættu.

HEILLANDI HEIMUR TÖLVUNNAR

Í tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík eru 19% nemenda konur. Þeim hefur fjölgað töluvert undanfarin ár enda fór háskólinn í markvisst starf að sækja stelpur í þetta nám. Í nýkjörinni stjórn nemendafélags tölvunarfræði-deildarinnar eru fjórar konur og tveir karlmenn.„Stelpur eru að koma meira og meira inn í þessi fög, sem er mjög skemmtilegt,“ segir Erla Harðardóttir nýkjörinn formaður nemendafélagsins Tvíundar, sem er félag nema í tölvunarfræðideild við HR.

Hrönn Róbertsdóttir er upplýsingafulltrúi félagsins og Fanney Hrund Jónasdóttir gjaldkeri, en auk þeirra eru þau Liljar Már Þorbjörnsson, Svava Dögg Björgvinsdóttir og Grímur Kristjánsson í stjórn Tvíundar.


Stúlkur sækja minna í tæknigreinar, en undanfarin tvö ár hefur markvisst verið reynt að fjölga stúlkum í þeim greinum.
Nú stunda alls 653 nám í tölvunarfræði við HR, þar af 115 konur.Aldrei spilað tölvuleiki
Erla segist ekki vera hinn týpíski tölvunarfræðinemandi; hún kenni ballett og hafi aldrei spilað tölvuleiki. Námið sé hinsvegar skemmtilegt og forvitnilegt. „Ég valdi þetta nám svolítið út í bláinn en þetta er fjölbreytt nám og starfsmöguleikarnir miklir þegar maður er búinn. Pabbi minn er forritari og það hafði eflaust áhrif. Svo er þetta bara mjög skemmtilegt og gefandi nám.“

Stelpurnar í tölvunarfræði stofnuðu félagið /sys/tur í haust. „Markmiðið með stofnun /sys/tra er að skapa vettvang fyir stelpurnar þar sem þær geta fjallað um nördalega hluti án þess að hafa áhyggjur af því að fá á sig ljóskustimpilinn,“ segir á heimasíðu félagsins, www.systur.weebly.com.

Vísun í goðsögn
Nafnið /sys/tur er vísun í skráarkerfi stýrikerfisins Linux og póstlistann Systers sem Anita Borg stofnaði 1987. Póstlistinn var hugsaður sem tengslanet kvenna innan tæknigeirans en þegar hún byrjaði með hann voru tólf konur skráðar. Nú er hann orðinn að heimsins stærsta póstlistasamfélagi kvenna í tæknigeiranum.

Starf félagsins fer þannig fram að tvisvar í mánuði eru svokölluð /sys/tra/kvöld. Þá koma konur úr tæknigeiranum til að segja stelpunum frá starfi sínu og reynslu. Þar að auki hafa verið settar upp tæknilegar vinnustofur þar sem tölvur eru meðal annars teknar í sundur og aðrar áskoranir skoðaðar.

„/sys/tur var fyrst hugsað bara frá tölvunarfræðinni en núna hefur félagið stækkað og þarna eru komnar inn stelpur úr öðrum tæknideildum. „Konur í tækni“, ætli það sé ekki góð yfirskrift.“

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. apríl 2014.

„NÓG KOMIÐ AF FÚSKI? MENNTUNARMÁL Í UPPLÝSINGATÆKNI OG VEFGEIRA“

Síðastliðinn miðvikudag hélt Skýrslutæknifélag Íslands (Ský) hádegisfund á Grand hóteli með yfirskriftinni „Nóg komið af fúski? Menntunarmál í upplýsingatækni og vefgeira.“ Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var fundarstjóri en á fundinum komu fram fimm fyrirlesarar. Ingibjörg Ósk Jónsdóttir, stofnfélagi /sys/tra, hélt fyrirlestur um framtíð menntunar í upplýsingatækni og skort á stelpum í tækninámi en í dag stunda 613 manns grunnnám við tölvunarfræðideild HR og þar af eru aðeins 19% stelpur.

Hér má sjá glærur Ingibjargar Óskar

STELPUR & STARTUP

Síðastliðinn mánudag héldu /sys/tur fyrirlestrakvöld með yfirskriftinni Stelpur og startup. Við fengum til okkar konur frá fyrirtækjum á mismunandi stigum startup bransans. Þær voru Steinunn Anna Gunnlaugsdóttir stofnandi Locatify, Helga Valfells framkvæmdastjóri Nýsköpunarsjóðs Atvinnulífsins, Brynja Guðmundsdóttir stofnandi Gagnavörslunnar/Azazo, Svana Helen Björnsdóttir stofnandi Stika og Sigríður Svala Jónasdóttir verkefnastjóri hjá Mobilitus. Kvöldið var mjög áhugavert og fræðandi en konurnar veittu /sys/trum góð ráð um allt sem viðkemur því að stofna fyrirtæki. Þess er vert að geta að tveir strákar úr hugbúnaðarverkfræði mættu á viðburðinn sem var mjög ánægjulegt en allir sem hafa áhuga eru velkomnir á viðburði /sys/tra.

Við þökkum þessu flottu konum úr startup bransanum kærlega fyrir komuna!

9412903_orig (1) 7535322_orig 6826362_orig (1) 6757590_orig 6058608_orig (1) 974151_orig 76915_orig

 

HVAÐ ÆTLAR ÞÚ AÐ LÆRA?

Allir sjö háskólar landsins stóðu að Háskóladeginum sem fram fór í gær í húsakynum háskólanna á höfuðborgarsvæðinu. Var þetta í tíunda skipti sem háskóladagurinn er haldinn en á deginum gefst verðandi nemendum og öllum öðrum færi á að kynna sér þær námsleiðir sem kenndar eru í íslenskum háskólum. Skólarnir bjóða samtals upp á um 500 námsleiðir. Monitor fór á stúfana og kynnti sér námsframboðið örlítið betur. /sys/turnar Hólmfríður Guðný Einarsdóttir og Ingibjörg Ósk Jónsdóttir urðu á vegi þeirra í Háskólanum í Reykjavík.

 http://www.mbl.is/folk/frettir/2014/03/02/hvad_aetlar_thu_ad_laera/

VAR HÚSMÓÐIR OG DREYMDI Í 10 ÁR UM AÐ FARA Í TÖLVUNARFRÆÐI

Perla Þrastardóttir er á fyrsta ári í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík. Áhugi á tölvunarfræðinámi hafði blundað í henni í áratug og að lokum tók hún ákvörðun um að láta slag standa og innrita sig í frumgreinanám HR sem er undirbúningur fyrir háskólanám. Hún hafði í byrjun áhyggjur af miklum fjarvistum frá þremur börnum en segir að með góðu skipulagi sé allt hægt.

FRAMANDI LÆRDÓMUR
Í frumgreinanáminu fékk Perla þá undirstöðu í stærðfræði sem þarf til að hefja nám í tölvunarfræði. „Ég kláraði frumgreinanámið síðustu áramót og byrjaði í tölvunarfræðinni við HR síðasta vor. Tölvunarfræðin er ansi strembin og þetta er framandi lærdómur. Þetta snýst mikið um stærðfræði, líkindareikning og að nota rökhugsun. Í frumgreinanáminu hafði maður ákveðinn grunn að byggja á en þetta er alveg nýtt fyrir mér. En óskaplega gaman og spennandi.“ Perla segist núna bara hugsa um að komast í gegnum prófin og sé ekki mikið farin að hugsa um áherslusvið en segist þó aðeins byrjuð að velta því fyrir sér. „Nú er að koma inn það áherslusvið sem ég hafði látið mig dreyma um sem er vef- og viðmótsþróun. Ég var einmitt að vonast til að það myndi bætast við svið sem kæmi inn á vefforritun og hönnun þannig að þetta verður klárlega mitt áherslusvið.“

ÆTLAR AÐ SIGRA HEIMINN

Helga Guðmundsdóttir dúxaði í tölvunarfræði við HR en lokaverkefni hennar voru rannsóknir fyrir NASA. Henni finnst konur í faginu ekki nægjanlega sýnilegar og stofnaði félag kvenna í tölvunarfræði. Atvinnutilboðum rignir yfir Helgu en hún vinnur nú að meistaraverkefni sínu í samstarfi við Facebook.

„Ég var ekki þessi týpíski tölvunörd. Ég spilaði ekki tölvuleiki og þegar ég byrjaði hafði aldrei forritað,“ segir Helga Guðmundsdóttir, meistaranemi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, en Helga dúxaði þegar hún lauk grunnnáminu núna í janúar. „Ég var lengi vel hikandi við að  
skrá mig í námið og fannst eins og þarna væru bara einhverjir strákar með snillingastimpil á enninu og að ég ætti lítið erindi með þeim, sem auðvitað var algjör misskilningur. Fyrst prófaði ég að vinna á tölvuverkstæði og fór á námskeið hjá NTV, Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum, til að fá smá sjálfstraust. Þar gekk mér vel og ég ákvað að fara í námið,“ segir hún en alls liðu fimm ár frá því áhuginn vaknaði þar til hún lét af verða að skrá sig í tölvunarfræði. Helga vinnur nú að meistaraverkefni sínu í samstarfi við vísindamenn frá Facebook. Í grunnnáminu stundaði hún rannsóknir fyrir NASA og Google er þegar byrjað að hafa samband. Helga er einnig ein af stofnendum /sys/tra, sem er félag kvenna innan tölvunarfræðideildar í Háskólanum í Reykjavík.


Ekki alltaf góður nemandi

Helga var ekki alltaf góður nemandi, rétt skreið í gegn um menntaskólann og fannst námið hundleiðinlegt. Þegar kom að því að velja háskólafag var tölvunarfræði aðeins eitt þeirra faga sem komu til greina. „Ég var ekkert fullkomlega viss um að þetta væri málið en ég var ágætis notandi og tölvur hafa legið ágætlega fyrir mér. Ef það þurfti að gera eitthvað með tölvu gat ég fundið út úr því. Mér finnst líka heillandi við tölvunarfræðina að það er hægt að tengja hana við hvað sem er. Þó mann langi til dæmis síðar að læra líffræði þá er hægt að tengja það saman. Möguleikarnir eru endalausir. Mér gekk strax vel í náminu enda fannst mér það skemmtilegt og ég sinnti því. Það skiptir öllu að maður hafi áhuga á því sem maður er að
læra. Á þriðju önn skráði ég mig í mjög erfiðan stærðfræðikúrs, nánast af slysni, og flestir þar voru á þriðja ári í stærðfræði en ég hef lítinn stærðfræðibakgrunn, enda langt síðan ég var í menntaskóla. Ég ákvað bara að taka þessari áskorun, lagði á mig mikla vinnu og stóð uppi með hæstu einkunn á öllum verkefnum og á lokaprófinu í kúrsinum. Það er svo mikill persónulegur sigur að halda að maður eigi ekki erindi en ganga svo miklu betur en maður þorði að vona. Sagan hefur síðan endurtekið sig. Ég skráði mig til dæmis
í tölvuöryggisáfanga, eina stelpan sem hingað til hefur verið í þeim áfanga, og ákvað að vera ekki hrædd við strákana með snillingastimpilinn sem mér fannst vita allt fyrirfram. Þar lærði ég að hakka og hef tvisvar komist í úrslit í Hakkarakeppni HR,“ segir hún en tilgangur keppninnar er að kenna forriturum og yfirmönnum tölvufyrirtækja að fyrirbyggja árásir tölvuþrjóta með því að þekkja þær leiðir sem andstæðingurinn notar til að koma í veg fyrir að hann fái sínu framgengt.
Viðtalið við Helgu birtist í Fréttatímanum 21. febrúar 2014.Smellið hér til að lesa viðtalið í heild sinni.
AetlarAdSigraHeiminn