UT MESSAN

/sys/tur voru með sýningarbás á UT messunni í Hörpu síðastliðinn laugardag. Fjölmennt var á hátíðinni en tæplega 9 þúsund manns kíktu við á laugardeginum. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi á sýningarbásnum þar sem við kynntum ýmis verkefni sem við höfum unnið að með litlu tölvunni Raspberry Pi.
Fólki bauðst að rifja upp æskuminningar sínar og spila marga af þeim allra vinsælustu NES og SNES leikjum en Raspberry Pi hafði verið breytt í Nintendo hermi. Gæludýr Elísabetar voru í beinni útsendingu á sýningarbásnum en hún setti upp nagdýraeftirlit með hjálp Raspberry Pi. Þar að auki var hægt að prófa viðmót stýrikerfisins Raspbian og spreyta sig í auðvelda forritunarmálinu Scratch sem fylgir með stýrikerfinu. Lena Dís sýndi fólki Media Center sem hún bjó til úr Raspberry Pi og Helga og Áslaug kynntu fólki fyrir Tor verkefni sínu. Í því var sýnt hvernig mögulegt er að nota Raspberry Pi til þess að fela sporin sín á netinu og hvernig hægt er að nota hana í njósnir. Krúttmundur og Krúttmunda unnu hjörtu gesta UT messunnar. Börnunum bauðst að forrita hreyfingar Krúttmunds í forritinu Lego Mindstorms en þau voru ótrúlega fljót að læra á forritið og það var gaman að sjá hve áhugasöm þau voru að forrita.

/sys/tur þakka öllum þeim sem komu á UT messuna fyrir frábæran dag.

ut14 ut141 ut142 ut145 ut146

Janúarútskrift HR

Okkar eigin Helga dúxaði BSc-inn sinn á janúarútskrift HR. Hún hélt ræðu fyrir hönd útskriftarnemenda um mikilvægi þess að stíga út fyrir þægindarammann og að margra mati var þetta flottasta ræða athafnarinnar. Við óskum henni innilega til hamingju og tökum áskoruninni um að leita uppi áskoranir og ögra okkur sjálfum.
Þrjár aðrar stelpur útskrifuðust einnig úr tölvunarfræðinni núna í janúarútskrift, þar af ein með PhD. Vel gert, stelpur 🙂

UNDIRBÚNINGUR FYRIR UT-MESSUNA

Þessa dagana eru /sys/tur á fullu að undirbúa Raspberry Pi verkefni fyrir UT-messuna. Eitt project er nánast tilbúið nú þegar tvær vikur eru í stóra daginn, svo við munum allavega geta boðið fólki að spila Nintendo. Svo er verið að búa til hljóðfæri, vélmenni og ýmislegt fleira skemmtilegt.